yrkir titill svhv2019.

Regnhlíf

Þegar ég stíg inn á verkstæðið
stara mennirnir á regnhlífina
og ég geri mér ljóst að hér
í þessum bæ við sjóinn
er ekki vanalegt að
fólk gangi um með regnhlífar
jafnvel þótt úrhelli sé
heldur setja menn hér
hettuna kirfilega á höfuðið
og hafa sig álútir í storminum
eftir þeim fáu gangstéttum
sem finnast eða miklu fremur
aka þeir í bílum þegar ekki er
hundi út sigandi.
Það dettur engum í hug
að ganga hér um
í leiðindaveðri
nema aðkomufólki
og útlendingum.
Ég spyr hvort mennirnir hafi
mælt loftið í dekkjunum
og þeir segja hlæjandi að
nú sé sveitaloft í þeim
og það þurfi ekki að mæla
en ég held frekar að
í þeim sé rok.
Með það fer ég og hef
regnhlífina samanbrotna
þennan spöl yfir að bílnum
þó hellirigni.