yrkir titill svhv2019.

Hraunungi - efni skírdags 2021

Hrjúfur og ómótaður
hvílir þungur í lófa
steinrunninn hraunklepri
svargrábrúnn
ber með sér forneskju
frumstæða og framandi.

Er þó alveg nýr
runninn frá möttli
móður jarðar
fyrir fáum dægrum
- hraunungi
gerður af fljótandi kviku
sjóðandi eimyrju
vellandi um gosop
á Reykjanesskaga.

Skírður af eldi
bakaður, brunninn
hrár og óveðraður
í senn forn og nýr
frumefni og framtíðarland.

Hvílir þung í lófa
sending úr iðrum jarðar
umbreytingin sjálf
hinn raunverulegi heimur
orku og efnis
þéttur, hægur
í órofa deiglu
skiptir stöðugt
um ásýnd.

 

 

(Upphaf Geldingadalagoss 2021)