Velkomin!

Verið velkomin á síðuna mína Yrkir.is. Ég stofnaði til hennar árið 2016 og nýti hana til að halda utan um og birta talsvert af höfundarverki mínu. Það innifelur einkum ljóð, sögur, langar og stuttar, ýmsar greinar, hugleiðingar og jafnvel drauma …

Info er alls konar upplýsingar: um höfundinn, hvað er á döfinni hjá mér og hitt og þetta annað.

Ljóð eru hér í hundraðavís, flokkuð eftir prentuðum bókum og efnistökum, birt eru óprentuð ljóð, þýðingar þeirra og þýðingar mínar á ljóðum annarra, auk nýskapaðra og alveg hrárra ljóða sem ég hef gaman af að hengja út á þvottasnúru alheimsins og láta aðeins taka sig áður en þau fara í frekara snikk.

Sögur eru skáldsögur og sannsögur (creative nonfiction), smásögur og frásögur, ýmist prentaðar eða óprentaðar, sem hljóðbækur (audio) eða rafbækur (e-book). Undir Media er umfjöllun fjölmiðla um bækur mínar og auk þess eru þar hugleiðingar ýmsar og skrif mín í fjölmiðla, tímarit og bækur gegnum tíðina, bæði úr blaðamennskutíð og persónulega.

Í Safnrit setti ég ljóð mín sem birst hafa í safnritum ýmsum.

Ég opna hjarta mitt,
þetta innmúraða búr ljóða minna
og sendi þau eins og fugla
út meðal fólksins -
veit að sum þeirra
eiga í vök að verjast
eins og snjótittlingarnir
í hvítu kófi janúarbyljanna.
Önnur skipta sér niður á bæina
eins og hrafninn.


Matthías Johannessen, Sálmar á atómöld, 1966Tibi ipsi estu fideles!

Halló!

Nú hef ég lokið því ætlunarverki mínu að flytja yrkir.is um set úr Joomla yfir í WordPress-umhverfi. Ég notaði tækifærið og tók til í vefnum og hann ætti því að vera þokkalegur, en auðvitað áfram í vinnslu.

Sem fyrr er yrkir.is birtingarvettvangur skáldskapar míns og ýmissa greina úr blöðum og tímaritum, þátta úr útvarpi o.fl.

Yrkir hefur einnig tekist það hlutverk á hendur að vera hugverkaútgáfa, gaf til dæmis út ljóðakverið Hin blíða angist, ljóð frá Mexíkó árið 2017 og skáldsöguna Ástarsögu í hljóðbókar- og rafbókarformi.

Kíkið á efnisyfirlitið og finnið ykkur þar eitthvað bitastætt að skoða!