Ný ljóð
Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á yrkir.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist.
Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum.
24. FEBRÚAR ANNO 2023
Uggur í brjósti.
Hvað tekur hinn brjálaði stríðsherra
til bragðs í dag?
ætl'ann sprengi atómbombu?
ætl'ann beiti efnavopnum?
ætl'ann þurrki Úkraínu út?
okkur öll út?
eða haldi ‚bara‘ áfram
staðfastur í sinni vitfirringu
að murka lífið úr
og gera lífið óbærilegt fyrir
þjóð í þúsund molum
eftir árslanga innrás
Pútíns og hans liðsmanna?
Ævarandi smán, Pútín,
skaltu hafa fyrir að
etja Evrópu aftur í stríð.
Megi nafn þitt vera
hrakyrði, niðurlæging,
til marks um veiklyndi,
blint hatur,
botnlausa heimsku.
Megir þú
og allir þínir fylgjendur
búa við karma
óendanlegra kvala
í ystu myrkrum
hinna samanlögðu bölbæna.
Úkraína!
þessu verður að linna
áður en allt er um seinan!
Úkraína!
og þið öll, fórnarlömb
ofstækis og mannfyrirlitningar
stríða sem geisa um víða veröld
á yfir þrjátíu átakasvæðum
í Miðausturlöndum, Norður- og
Vestur-Asíu og Afríku sunnan Sahara!
Megi friður ríkja
grimmdin víkja
og græðgin.
Er það andvana borin von?
Myrkur á bak við jólaljós
sjá hve miðborgin er fagurlega skreytt
jólaljós tindra hvarvetna!
ys og þys
glaðar barnaraddir
matarilmur í lofti
úr skuggunum á Austurvelli
hrópar rödd geðveiki
fíknar
fátæktar
auðnuleysis
á bekkjunum fjarri jólaljósum
samanhniprað frostbitið fólk
sem öskrar út í myrkrið
brýtur sér leið inn í ljósið
milli jólakúla og glingurs
með bölvi og ragni
formælingum í garð okkar hinna
sem hröðum okkur sakbitin
fram hjá þessum velli eymdarinnar
þar sem hinir lánlausu dvelja
og geta ekki annað
2. desember anno 2022
vetur hefur loks sest að
borgin undir hrímfeldi
stirnir köldu gliti
skammærrar miðdagssólar
það andar köldu
þótt glampi á jólaskrautið
má greina myrkrið á bak við
örvinglaðar manneskjur
í köldu rökkrinu
þræla eins og púlshestar
aðframkomnar að reyna
hanga uppréttar
eiga fyrir þaki og salti
úr fjarska berst kátur kliður
af börum og mathöllum
skartklætt fólk á þönum
niður og tíst kaupa og sölu
það andar köldu
í þessu samfélagi
þar sem myrkrið
á enn eftir að þyngjast
stormar að geisa
það
andar
köldu
Hringakstur
Sofandi maður í leið þrjú
hefur farið hring eftir hring
vagnstjóranum er öllum lokið
hann spyr stjórnstöð ráða
eða hvort enn skuli farinn hringur
með sofandi farþegann
Ég get ekki vakið hann. Yfir.
Augnablik, ég hringi í lögreglu. Yfir.
Lögreglan spyr þig hvort maðurinn andi. Yfir.
Mér sýndist hann anda áðan. En ég veit það ekki fyrir víst. Yfir.
Lögreglan spyr á hvaða aldri farþeginn er. Yfir.
Tja, þrítugur. Kannski fertugur. Yfir.
Lögreglan biður þig að athuga aftur hvort maðurinn andar. Yfir.
Já, ég skal skoða það. Yfir.
Þögn.
Vagninn heldur sína leið og lífið heldur áfram í hringi hjá flestum.
Aðdráttarafl á Hringbraut
svartklædd
samt í blóðrauðri peysu
framandleg
með svartbrúnan hárþyril
yfir dökkum vakandi augum
mjúkur líkaminn hvílir
fallegur í hreyfingum
við sitjum þarna
hvor sínum megin
í leið þrjú
um miðbik þriðjudags
sólin baðar Hringbrautina
þar sem líf okkar liggja
óvænt saman
eins og háspennulína
sé strengd yfir ganginn
milli okkar
aðdráttaraflið ýlfrar í strengnum
og forvitnin
en svo stíg ég út á biðstöðinni
við Hallargarðinn
Morgunandakt
bregst ekki
klukkan hálf tíu
koma þau lallandi
eftir reykvískri gangstétt
gömlu taílensku hjónin
hönd í hönd
sama hvernig viðrar
öldruð og lúin
eilítið vagandi
hún talar
hann þegir
samkenndin augljós
hver skyldi vera
saga þeirra
sem binda saman álfur
og tímana tvenna?
Næturmynd
það er nótt
og ég þreyi andvökuna
sit við gluggann
horfi á nóttina bæra
næturgrænt lauf hausttrjáa
regnvot gatan einsömul
í háleitu skini ljósastaura
borgin bíður morguns
haustið bíður vetrar
ég bíð svefnsins
vindurinn gerir aðsúg
að nóttinni
slítur laufið út í sortann
svartnættið hopar
fyrir ljósinu
Bænasöngl
hann situr framarlega
í vagninum
- ég fremst
byrjar að syngja
- lágt en ákveðið
ég átta mig á
að maðurinn
kyrjar bænir
hér í leið þrjú
um miðjan dag
á Miklubraut
mitt í erli
hversdagsins
staðurinn fljótandi
en stundin heilög
ég finn í þessu fegurð
skynja nið aldanna
framandlega strauma
sem nútíminn fleytir
að ströndum
Í sjónlínu við Völkunadd
I
sit á kúptum steini í fjöru
hafið er svarblátt og kyrrt
fuglinn úar á lognöldunni
kvöldsól bregður löngum skuggum
goluþytur við eyra
hárlokkur kitlar vanga
dreitill hlýjar hið innra
ég brosi út í kyrrðina
raddir í fjarska
þjóðvegaumferð
þota í háloftum
lóa syngur kveðjustef
haust fer að
II
þessir löngu skuggar
ná jafnlangt aftur og lífið
maðurinn er aldrei einn
þó að hann haldi annað
útmörk tilverunnar fjarlæg
og nálæg í senn
tíminn boginn
aðdráttarafl minninganna
sveigir hann að sér
sums staðar svarthol
það sem hæst rís
varpar lengstum skugga
Við Knarrarós
bogi jarðkringlu hnífskarpur
dreginn svarblár við ljósan himin
þar sem nótt mætir degi
og roðagyllt sól gengur til viðar
við sjónarrönd farskip
selir á útskerjum
undir drynur þungt haf
hvítfextrar öldu
rýkur af þangi í fjöru
rauðar marflær á þönum
hlaupa undan flóði
togkröftum tungls
allt rís
allt hnígur
Kjarnorkukvíði
ung fór ég vítt um veröld
þjökuð kjarnorkukvíða
við gátum ekki vitað
hvort vöknuðum að morgni
allt undirlagt kaldastríðsógn
stórveldi í störukeppni
atómbombur á vogarskálum
sigurvegarinn myndi einnig tapa
svo velti þúfan Höfði þungu hlassi
heimurinn kyrrðist
kjarnorkukvíðanum létti
menn uppteknari af örbylgjukliði
næstum fjörutíu árum síðar
örvæntum við aftur
yfir því sama
og meiru til
hvernig getum við
verið komin svona langt
en þó svo hræðilega stutt?
HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.