yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á yrkir.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist.
Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum. 

 

Hluti af því sem er

 

Á skógarstíg

rölti í janúarstillu

óljós angan

fjarlægur niður

horfi í kalbláan himin

rósöm

ég er allt

og allt er ég

finn það

þar sem ég geng

hvernig efnið færist gegnum mig

ég færist gegnum efnið

tilfinning um að tilheyra

vera hluti af öllu

þráður í vefnaði

bærist, allt bærist

einsemd ungdóms

að baki

því ég er á hálfri öld

gengin alheiminum á hönd.

 

 

Lífshlaup

 

Brann

af ókyrrð, þrá, þorsta,

forvitni, feigð

endasentist um veröld víða

að leita uppi tilveruna

teyga lífið

 

í aldurdómi finn enn

keim af þessu

þó óljósan

 

bruninn hægari

stöðugri

tíminn hefur þanist út

hægt að horfa bæði aftur

og fram

hugleiða merkingu

mæta sjálfum sér

í andardrættinum.

 

HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.