yrkir titill svhv2019.

Út í bláinn

Hvítblár himinn yfir Íslandi
tær kæla haustsins ýfir lauf
ófokin enn í skrjáfandi lagð
sem liðast um götur fyrir vindi.

Þessi blái kaldi himinn yfir fólki
á norðurhjara sem þreyr óvissan tíma
þar sem mannlífið hægist
jafnt þar sem í öðrum löndum
og jarðlífið nær aftur andanum
meðan grisjast lítilsháttar úr
röðum rándýranna.

Blámi himinsins og fjallanna skýrist
og felur við sjónarrönd í sér
þrá um að allt verði eins og áður
um leið og vitneskjan ögrar
því allt eins og áður mun
geysast fram af hengiflugi
eilífðarinnar og saga
mannkyns á jörðu vera,
eins og doktor G. Sigvalda sagði,
líkt og vægur hnerri ungbarns
í jarðsögulegum tíma.

Og kalblár himinn vakir yfir okkur
eins og til að aðgæta hvort
þessi fáráði flóasirkus sígi
fyrir orð úlfanna
í sjálfhverfni og vitandi vits
til ógæfunnar
við ym af fallþunga daganna.