yrkir titill svhv2019.

Ástarsaga

ForsidaAstarsagaSteinunnAsmundsdottir2022YrkirKomin er út ný skáldsaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur, Ástarsaga.

Franskur ljósmyndari og íslensk stúlka kolfalla hvort fyrir öðru helgina sem Reagan og Gorbatsjev funda í Höfða í Reykjavík haustið 1986. Saga um ofsafengna ást, stórveldaslag, kjarnorkukvíða og hvernig Reykjavíkurfundurinn breytti heiminum.

Eftir höfund Manneskjusögu. Útgefandi YRKIR hugverkaútgáfa.

                                                                             English summary below

KAUPA ÁSTARSÖGU:

Kaupa beint frá höfundi (kr. 4.000 pr. skrá):

  • Rafbók
  • Hljóðbók (höfundur les, 5,5 klst.)
  • PDF-skjal til lestrar/útprentunar

Vinsamlega sendið tölvupóst á netfangið steinunnasm<hjá>gmail.com og gefið upp nafn og skráartegund/ir sem óskað er eftir að kaupa. Viðkomandi skrár verða sendar á netfang þess er pantar þegar inngreiðsla, kr. 4.000, hefur borist á reikning 305-26-1169, kt. 010366-4969.

Þökk fyrir viðskiptin.

Bæði hljóðbók og rafbók einnig fáanlegar á Storytel og í bókasöfnum.

Nánar:

Ástarsaga fjallar um unga Reykjavíkurstúlku og franskan fréttaljósmyndara sem kynnast og verða ástfangin í aðdraganda fundar Reagan Bandaríkjaforseta og Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða í Reykjavík haustið 1986, fundar sem átti eftir að breyta heimssögunni.

Sagan gerist á fimm dögum í kringum fundinn og næstu fimm ár á eftir, þar sem allt var smám saman til lykta leitt og veröldin losuð úr viðjum.

Lýsingarnar á Reykjavík og því hvernig hún fór á annan endann svo dögum skipti vegna fundarins eru kostulegar nú næstum fjörutíu árum síðar. Þetta var tími snúrusímanna og ritvélanna, ýmissa hafta og kredda og síðast en ekki síst tími kalda stríðsins.

Ástarsaga er tímaferðalag og sýnir hvernig sagan endurtekur sig sí og æ.

Heillandi bók sem lýsir tilvistarangist, ástarþrá og leit hinnar ungu manneskju að sínum stað í tilverunni.

Sagan hefur með hléum verið í smíðum frá 2019 og kemur nú loks fyrir sjónir almennings.

 

ASTARSAGA Steinunn AsmundsdottirHöfundurinn Steinunn Ásmundsdóttir er fædd árið 1966, ljóðskáld, skáldsagnahöfundur og lengst af blaðamaður, búsett í Reykjavík. Ástarsaga er áttunda bókin sem hún sendir frá sér, en áður hafa komið út eftir hana sex athyglisverðar ljóðabækur og sannsagan Manneskjusaga, sem hlaut lofsamlega dóma. Væntanleg er ný ljóðabók frá Steinunni á vormánuðum 2023.

BÓKATÍÐINDI 2022

RITDÓMAR OG VIÐTÖL  

 

UMMÆLI LESENDA:

Ég var að klára að hlusta á þessa. Dásamlega hlý og falleg, lágstemmd þó umfjöllunarefnið í ástarsögunni sé rjúkandi heitt og undirliggjandi kjarnorkuváin kraumandi. Steinunn er áhugaverður rithöfundur með sérstaka rödd. Og talandi um rödd: Steinunn les bókina sjálf og gerir það afar vel. Hún verður mun persónulegri fyrir vikið. Nostalgíuferð fyrir allan peninginn. Steinunn hefur töfrandi frásagnarhæfileika og glæðir þennan liðna tíma lífi og hlýju.
Hlakka til að lesa þessa aftur. Dásamleg ferð til fortíðar sem einhvern veginn virðist bara nýliðin.

Minn uppáhalds rithöfundur var að gefa út bók, ég er búin að bíða lengi eftir þessari og hún lofar góðu, mæli með að kíkja á Yrkir.is og næla sér í eintak. ... Var að hlusta á þessa bók um helgina, ég var bara barn þegar Höfðafundurinn var svo mér fannst gaman að sjá fyrir mér sögusviðið á þessum tíma og hvernig höfundur fléttar staðreyndir inn í söguna. Áhugaverð og skemmtileg bók, mæli með henni. Mæli með að sækja þessa á Yrkir.is og láta höfundinn lesa hana fyrir sig.

Frábær saga og vel lesin, takk fyrir mig … hlustaði á Storytel.

Ég má til með að vekja athygli á nýútkominni bók eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Hægt er að kaupa hana sem hljóðbók, á lítinn 4þúsundkall - mæli heilshugar með því - og ekki spillir nú fyrir að Steinunn sér sjálf um lesturinn. Takk fyrir að taka mig með í tímavél aftur til ársins 1986 - og til hamingju með þessa fantagóðu bók, Ástarsögu.

Mæli með og hlakka til að hlusta á söguna hennar Steinunnar. Hún er frábær rithöfundur og einstök í sínum skrifum.

Er komin á 6 kafla! Það er dásamlegur fílíngur í bókinni, litríkar og spennandi persónur, nær vel stemningunni á þessum tíma og ég sé (Höllu) náttúrulega algjörlega fyrir mér, inni í Hátúni og alltaf með svo ævintýralega eyrnalokka! Hlakka til framhaldsins og rómansins. ... Hljómar líka eins og efni í góða bíómynd!

Mæli eindregið með lestri á þessari bók. Yndisleg saga í frábærum lestri höfundar. Þvílík nostalgía að rifja upp þessa tíma, miðbæjardjammið, skemmtistaðina, tónlistina og bara andrúmsloftið í kringum sögupersónurnar.

Mér þykir þetta ritverk hafa heppnast vel, því að efnið er ekki auðvelt viðfangs, hvort sem litið er á það persónulega eða heimspólitíska, en (höfundi) hefur tekist að flétta það furðu vel saman í stutta, hnitmiðaða og spennandi sögu. Mér fannst sérstaklega gaman að (höfundur) hefur náð í halann á bréfaöldinni, sem ríkt hafði í 200 ár, og var búin að notast mannkyni frá upphafi ritmáls, en 1986 var skammt í tölvuöldina, þegar öll samskipti breyttust. Bréf eru viðamikill þáttur í fjölmörgum skáldsögum síðan á miðri 19. öld og á það ekki síst við hér á landi.

 

HUGLEIÐING HÖFUNDAR

Síðsumars árið 2019 fór ég að hugleiða næsta viðfangsefni í skáldsagnaskrifum. Manneskjusaga hafði komið árið áður og fengið mjög sterk og góð viðbrögð lesenda. Ljóðabók var að koma úr prentvélunum á vegum Dimmu. Það var því kjörinn tími til að ákveða efni næstu bókar.

Þá blasti við, líkt og efni Manneskjusögu hafði blasað við mér og í raun verið óumflýjanlegt næsta verk, að þessa sögu yrði ég að segja. Gefa innlit í líf ungra manneskja á því geggjaða ári 1986 í Reykjavík, þegar alþjóðlegir straumar urðu sem flaumur um hina steingeldu smáborg og líkt og í spéspegli mátti skoða snarpar andstæður hvarvetna. Borgin og allt landið fóru á hvolf með ofsahraða, handtök urðu óhemju snör og allir vildu standa fremst og fá að snerta þessa augnabliksfrægð.

Við sem vorum ungt fólk á þessum tíma fórum ekki varhluta af þessari bylgju sem reið yfir og enginn var ósnortinn eftir. Allt í einu fengum við gleggri sýn langt út fyrir landsteina, út í ystu kima, út fyrir okkur sjálf. Heimurinn stækkaði til allra muna og veruleiki manns sjálfs minnkaði kannski sem því nam einnig. Svo ríður ástin, sjálft lífsaflið, auðvitað ekki við einteyming og fór á stökk þarna eins og annars staðar, í þessum gerjunarpotti eftirvæntingar og heimsendaskelfingar. Og svo fór sem fór. Að því er virtist rýr afrakstur leiðtogafundarins olli fyrst um sinn gífurlegum vonbrigðum á heimsvísu en þegar frá leið mátti sjá markverð áhrif hans á framgang veraldarsögunnar.

Nú er hins vegar eins og við séum komin í hring og um leið og við upplifum stríð á jaðri Evrópu má glögglega sjá móta enn á ný fyrir sívaxandi fjandskap hinna stærstu valdablokka sem sýna tennurnar með yfirgangi, peningaafli, vopnavaldi og þrúgandi kjarnorkuógn. Á sama tíma og öllu skiptir að jarðarbúar séu sameinaðir í átaki gegn þeirri miklu náttúruvá af manna völdum sem mun kosta útrýmingu tegundar okkar innan fárra kynslóða ef ekki nást bönd á.

Mig langaði sem sagt að skrifa um þennan tíma og þessar tilfinningar sem ég upplifði sjálf og skapaði þannig Ástarsögu grundvöll og lét svo skáldskapinn fylla í eyðurnar. Ég stúderaði sögusviðið vandlega til að gera mér fyllri mynd af því sem raunverulega átti sér stað, sendi ástina á skeið og breiddi svo yfir allt hina hárfínu blæju spurningarinnar „Hvað ef“ sem flest fólk burðast með í hugskotinu til dauðadags.

Til gamans má geta þess að tilvitnunin fremst í bókinni er úr lagi sem kom út 1986 og kápuletrið var sett á markað sama ár.

post scriptum
Nú hafa tveir þekktir einstaklingar ritað saman og gefið út glæpasögu sem liggur, að hluta til í það minnsta, á nákvæmlega sama sögusviði og Ástarsaga, það er að segja á og umhverfis leiðtogafundinn í Höfða haustið 1986. Þetta er Reykjavík-glæpasaga þeirra Katrínar Jakobsdóttur og Ragnars Jónssonar. Það er skondið að sjaldan er ein báran stök og hugmyndir eiga það til að birtast samhliða úr ólíkum uppsprettum.
Ámóta var þegar ég heyrði af því að ungar skáldkonur hefðu bundist samtökum undir heitinu Yrkjur nú í vetrarbyrjun 2022. Ég setti skáldvef minn Yrkir.is í loftið haustið 2016 og hef unnið með þetta nafn síðan í hugverkabirtingum og útgáfu. En svona er þetta bara, maður situr víst ekki einn að neinu. (Einnig birt á skald.is)

 

English summary 
A French photographer and a young Icelandic woman fall madly in love. A classic story, yet completely unexpected during the backdrop of Cold War politics. Their passion ignited the weekend that Ronald Reagan, the President of the United States and Michail Gorbachev, the last leader of the Soviet Union, met at Höfði in Reykjavík, Iceland, in the fall of 1986.

It is the story of a wild romance, of that which could have been, a battle between the superpowers and how the meeting in Reykjavík changed the world and these lovers‘ lives. The ways in which this meeting created turmoil and turned life upside down in Reykjavik is shocking even forty years later. It was the time of corded landline phones and typewriters, restraints, predjudice and rigid nationalism, heightened by the Cold War and the race to the moon.

Their love story is a journey through time and shows how history repeats itself again and again.

A fascinating adventure by an acclaimed author of six books of poetry and a creative non-fiction book, Manneskjusögu or A Girls Tale (as it has been translated to English), which was published in 2018 and received rave reviews.

... if interested in translating the novel, please get in touch ...

 

Baksida an barcode