yrkir titill svhv2019.

Ný ljóð

Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á yrkir.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist.
Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum. 

 

 

Þingvöllum 10. ágúst 2021

 

Ilmur af gróðri
og svörtum hömrum

Gengin spor
þagnaðir hlátrar

Trén orðin hærri
stígarnir uppgrónir
flaggstöng Lögbergs lægri
mannvirkin meiri

Hljóð þín og ilmur
eru í mínu blóði

Gárur vatnsins og dalalæða
vor þitt og sumar
mitt haust.

  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -

 

 

Um ilm skógarins

 

Ilmurinn er
eins og ljóð
eða ský,
lauslegur,
flýgur fyrir,
finnst einu sinni
á hverjum stað,
ofurlítið rakur,
víður,
umfaðmandi
með langt minni
djúpt úr rótum
og árstíðum.

Variasjónir eru ýmsar.
Ólíkur er ilmur
vorskógar eða að hausti,
skógar þrungnum sumri
eða köldum og sofandi.
Þurr skógur ilmar ólíkt votum.

Ilmurinn er heillandi
líkt og af hvítvoðungi
og fær mann til að anda.

  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -

 

Völundur

 

Ég hef aðeins hitt
einn mann á ævinni
sem skildi
hismið frá kjarnanum
í raun og veru
og gaf sálarkrafta
sína óskipta
á altari Móður Jarðar.

Verkamaður var hann
í blómagarði drottins
trúr yfir hinu smæsta
sem er hið stærsta
og annaðist landið,
bar hag þess fyrir brjósti
af einlægri ástríðu.

Moldugum og blíðum
smiðshöndum
fór hann um öræfahjartað,
kenndi og græddi,
vörslumaður landsins,
öræfaandi
landvættur
bóndi í fjallasalnum
Grágæsadal.

Fari hann sæll
sem yrkir nú eilífðina.

 -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -

 

HÉR er töluvert af nýlegum og eldri ljóðum sem ekki hafa farið á bók.