yrkir titill svhv2019.

Vírusljóð

VÍRUS I 

Er

Hvað veit ég?
Ekki neitt.
Ég veit ekki neitt.
Ég er.
Ég bara er.

Geri mitt besta á hverjum tíma.
Spila eftir eyranu.

Er.

 

VÍRUS II

Sótti

Ég fordæmi þig
fyrir að halda ekki
tveggja metra regluna
virða ekki þá fjarlægð
sem þér er mæld

fyrir að ráðast inn í rými mitt
og smita það
vítaverðu andvaraleysi

það liggur í loftinu
nú er allt ónýtt og ég berskjölduð.

 

VÍRUS III

Andartak þitt

Annastu andartök þín
stígðu sporin hægt
réttu fram opinn lófa
í kæfandi tómið
sem mun flytja
snertingu þína
andartak þitt
yfir víðáttuna
til systkina þinna
í frjálsu falli hugans
svo á himni og á jörðu.

Annastu andartök þín.

 

VÍRUS IV

Að faðma tré

Tilmæli eru frá ríkisskógum
um að gott geti verið að faðma tré
á þessum síðustu og verstu tímum
þegar vá krýnir veröld víða
og leggur ósýnileg í fjötra.

Frá barnæsku lagði oft ég kinn
að hrjúfum berki
umfaðmaði stofn með augu lukt
hlustaði á vatnsæðar
fann mínar rætur renna djúpt
með jarðbundnum trjárótum
þyrst sálin teygaði ljós
frá himni með greinum
hugur hvarf í árhringi
húð nam kælu og vöxt
dró að mér ilm jarðar
mold við skjól.

Nú stend ég í kófi
með vanga þétt við börk
finn tréð titra
og sveigjast fínlega
undan gjólunni
skynja styrk og lengd stofns
milli himins og jarðar
styrkja mig og róa
jarðtengja óöryggi
og sefa ótta.

(Við trjáfaðmandi furðuverur
getum nú opinberlega
og alveg blygðunarlaust
þrýst okkur að lífstofnum og hvílst).

 

VÍRUS V

Vírusvor

Í dag skín sólin.

Út yfir röð niðurlútra
berst sprittþrunginn blær
úr fordyri verslunar

fólk virkar umkomulaust
svona útmælt á stangli

ómögulegt að vita
hvort í þessum hlýja
og áfenga loftstraumi
sé fólgið vor
eða veira

ekki verður um villst
að allt er á hverfanda hveli
maður á ekkert fyrir víst
nema öndina í vitum sér
það augnablikið
andartakið

þvingað andartakið.