yrkir titill svhv2019.

Í höfn að eigin vali

 

Nú árið er liðið  ̶
þetta ár skelfingar og öryggisleysis.
Ár síðan ég sagðist ekki una þessu lengur
myndi fara burt og aldrei koma til baka.

Ég lagði eld að öllum brúm og brenndi að baki mér
nema þeirri sem brúar fjarlægðir milli mín og barna minna
̶  hún er heilög og sterk.

Í dag opna ég litla flösku af víni og helli í staup,
skála fyrir mér á þessum degi upprisu,
því að hafa komist lífs af
þó oft væru aðeins blánasir upp úr skelfingarflaumnum
sem ruddist af offorsi um hrakhóla
og ég hálfdrukknuð svo mánuðum skipti.

Ég hélt dauðahaldi í ljósið,
krampataki í vonina.
Ákallaði formæður mínar
guð og góðar vættir.
Hét því að treysta lífinu,
að trúa á lífið og kærleikann.

Hér er ég.
Í höfn að eigin vali.
Ber fullt traust til sjálfrar mín
og fagna sambúðinni við mig
í tilveru sem býr yfir töfrum,
vináttu, gleði, ljósi.
Tækifærin, ævintýrin,
lífsmagnið!
Ég á mig sjálf.

Nú árið er liðið.
Líf hefur öðlast þrótt á ný.