yrkir titill svhv2019.

Mars - ljóðaflokkur

 

Mars I

Herguðinn Mars tindrar
skærastur stjarna á morgunhimni
þessa húmblakka hausts
hátt yfir svörtum útlínum trjánna
þar sem hrafnar sitja
kalspakir á greinum
og ber í bláa dagrenningu.

Mars, Venus og Tungl eru
ljós haustfestingarinnar
anno 2020 yfir íbúum Jarðar
sem þreyja veiruplágu
og grimmd græðginnar

þorri fólks þessarar plánetu
leitar matar og skjóls
líkt og hrafnarnir í trjánum
og herguðinn vakir
kaldur yfir.

 

Mars II

Svarblá
dökkblá
hvítblá
ertu dagrenning
úr heilögu austri

hliðvörður
á þessu hausti
er gamli kaldi Mars

rauður eins og morgunroði
vakir hann skær
í upprisu ljóssins
uns hin himneska
birta dagsins
leysir hann af hólmi.

 

Mars III

Börnin komu inn
úr kaldri mars-slyddunni
settust við hrokað borð
þáðu súkkulaði með rjóma
í handmáluðum dönskum bolla
og litla kók með röri
sneið af tertu með afmæliskerti
sem feimnum óskum var blásið á
gjafir voru opnaðar
allir fylgdust með
af ákefð og öfund
þegar hér var komið sögu
fór að læðast að afmælisbarninu
kvíði fyrir uppvaski og tiltekt
að þurfa að þramma yfir allt húsið
með háværu Hoover-ryksuguna.

 

Mars IV

Í mars fæddist ég óvænt.
Í mars hætti ég að vera barn.
Í mars varð ég unglingur.
Í mars varð ég tvítug.
Í mars varð ég fullorðin.
Í mars varð ég tuttugu og fimm ára.
I mars varð ég þrítug.
Í mars varð ég fertug.
Í mars varð ég fimmtug.
Í mars varð ég þess fullviss
að ég yrði að breyta lífi mínu
lagði hönd á klett og hjarta
og sór þess dýran eið.
Í mars verð ég fimmtíu og fimm ára
aftur á sporbraut um Sólu
þrátt fyrir úrtölur gamla Mars.

 

Mars V

Í marsdrunganum
svarthvítu slabbi milli
vetrar og vors
dreymdi mann hvað mest
um að komast burt
frá þessari ömurlegu borg
að sleppa og fá að njóta
vorsins og hlýjunnar
sunnan við þyngslin 
úr lægðabörðu Atlantshafi

allt var betra annars staðar
allt var betra
en mars í Reykjavík.

 

 

(Ljóðaflokkurinn er enn í vinnslu og meira á eftir að bætast við hann).