yrkir titill svhv2019.

Ársuppgjör II

 

Skipið náði landi

síðustu orkudroparnir
margfaldaðir af voninni
sem landfuglar sveimandi yfir
báru með sér
til hins uppgefna sæfara.

Landsýn!
Það er land fyrir stafni!

Síðan hefur verið dyttað að
öll óáran rekin frá borði
stagað í seglin
og þilförin skúruð.

Sú kona sem á útsævi
stóð í stafni hrips
vafin í stormsegl
og þráði land
stendur hér keik
við stýrið
og horfir
með velþóknun
á sterkan
og gljáfægðan
farkostinn
sem á sér trygga höfn
milli ævintýrasiglinga
um höfin blá.

 

Ársuppgjör I má finna í ljóðabókinni Áratök tímans, útg. 2018.