yrkir titill svhv2019.

Kona hans - í Hólavallakirkjugarði

 

Þær liggja í röðum
grafnar í jörð
undir heitinu
„kona hans“
stundum án
eigin nafns.

Þeir skipta tugum
legsteinarnir með
þessa áletrun.

Konur þeirra
hafa ekkert gert,
en þeir verið
kaupmenn, bændur,
prestar, læknar
og sýslumenn.

Það stendur skrifað.

Þær voru aðeins
konur þessara karla.

Ég tek unga dóttur mína
í þetta beinasafn áranna
og við köstum kveðju á
„kona hans“
hvar sem við verðum
hennar varar, til að
votta þessum gleymdu
manneskjum virðingu.