yrkir titill svhv2019.

Sailing Yacht A

Á ytri höfninni
liggur skemmtiskip framtíðarinnar
hannað af frægum sítrónupressuhönnuði

hvergi er hægt að festa fingur
né augu
á marsléttu silfurgráu yfirborði þess
eða ávölum línum
marandi framandlegt á lognbárunni
lokað, innhverft
og afundið

kræklóttir fingur mastranna
ota gildum fingrum að því
sem fyrir stafni er

ætli seglin séu fangaverðir vindsins
eða andvarpa almúgans?

meira að segja fuglarnir
láta þetta þegjandi og þunglamalega
herfley peninganna í friði
og þegar ég horfi á það
setur að mér hroll
̶ jafnvel dystópískan beyg.

Ofar í borginni
fæ ég mér göngu
í nývöknuðum skógi
og lít þar aðra hönnun

gullinsnið náttúrunnar
í hálfopnum ljósgrænum
brumum loðvíðis
svo fislétt og dúnmjúk
lofandi lífi og ilmi
gjafmildi til vegfarandans
frá vori til vetrar
fyllir mig friði.

(Þegar auðkýfingurinn Andrey Melnichenko kom á fimmtíu milljarða króna mótor/segl-snekkju
sinni til Íslands vorið 2021. Hún er 142 m löng og möstrin um 100 m á hæð).