yrkir titill svhv2019.

Hin blíða angist

             M E X Í K Ó L J Ó Ð

Eitt haustið ákvað ég að fara ein suður á bóginn. Ég dvaldi í Mexíkó 1993-1994 og fór víða um landið. Af því að ég var að miklu leyti ein á ferð komst ég að einhverju marki inn í daglegan veruleika í landinu. Ég þvældist oft um með heimafólki, bæði bláfátæku og sterkefnuðu og allt þar á milli, kynntist jafnt götulistum sem hámenningu, örbirgð og allsnægtum, sorgum og gleði.
Ég skrifaði dagbók um það sem á dagana dreif en kom ekki í verk fyrr en seint og um síðir að setja minningar mínar frá þessum tíma á eitthvert form, þ.e.a.s. ljóð og prósa sem Yrkir gaf út í litlu kveri árið 2017. 
Minningarnar eru sterkar og ljóslifandi fyrir mér. Enn finn ég ilminn og hitann, heyri tónlistina og kliðmjúkt tungumálið og man kærleika og örlæti fólksins í þessu hrjáða en ægifagra landi.

Steinaimexico


Ein

Mig dreymdi fyrir brottförina
að ég væri að sökkva í iðandi maðkakös.

Um nóttina, þegar vélin kom inn til lendingar,
breiddi borgin úr sér í dalnum
líkt og óendanlegt perluhaf.

Segir fátt af einum.


Deigla

,,Skáldið má blátt áfram til með að
hitta Señjor Fernández,“
segir Alberto Pipino og keyrir mig heim til
virðulegs skálds í Mexíkóborg.
Húsið er stórt, hátt, einfalt,
maðurinn lítill, grannur, flókinn.

Við kunnum ekkert sameiginlegt tungumál
nema kaffidrykkju, bendingar og augnaráð
en ræðum saman svo klukkustundum skiptir.
Hrifinn dregur hann Sjálfstætt fólk úr hillu,
Laxness þýddan úr ítölsku á spænsku
og gleðst mjög að hitta landa Íslandsskáldsins.
,,Eruð þið þá öll skáld?“ spyr hann hlæjandi.

Líður að lokum og degi tekið að halla.
Hann áritar ljóðabók,
býður mér upp á stigapallinn
að glerskáp hlöðnum dýrgripum.
Tekur út undarlega fagran stein,
þrýstir í lófa mér og lokar fingrum.
Hann er úr Popocatépetl,
ég sótti hann sjálfur í eldfjallið.
Steinninn býr yfir mætti deiglunnar
sem ræður örlögum.

Ég hef enn ekki skilið þennan dag
en hann situr í mér, þessi maður.

 mexicosteinn

  Steinninn góði, frá Guillermo Fernández 
 skáldi og þýðanda, 20.10.1993.


 


Hvunndags í Toluca

Löng röð upp brekkuna í morgunbreiskjunni.
Glaðværar meztísakonurnar hafa vart við að leggja
rjúkandi heita tortillustafla í klútana okkar sem bíðum.

Eftir morgunþvottinn stingur
Ríkharður ljónshjarta sér hugrakkur
í strigapokann sem ég sveifla á öxlina
og við förum borgina á enda til að kenna
þéttholda daufgerðum lögfræðingi
sem trúir á NAFTA eins og guð almáttugan
hina alþjóðlegu tungu peninganna
svo hann geti spjarað sig með hákörlunum.

Verð að fá peninga,
við Ríkharður getum ekki bara
lifað á mjálmi og jarðarberjum
og ég er uppgefin á að
troða dagblöðum í skóna mína
á þessum kalda regntíma sporðdrekanna.

Fer til gullkaupmannsins með síðustu þynnuna sem
maðurinn við íslenska vatnið gaf mér fyrir brottför.
Dugar eitthvað áfram.

Ég treysti lífinu fyrir mér.Syngur lóa

Barinn angar af römmu tóbaki,
bjór og quesadillas.
Sjónvarpstökuvélarnar tilbúnar
og mexíkósku skáldin búin að koma sér fyrir.

Ég sit eins og íslensk lóa á milli þeirra,
þessara skeggjuðu byltingarmanna
sem ögra yfirvaldinu að koma og ná sér
fyrir kjaftháttinn.

Ljóða hikandi spænsku og þeir karlarnir
klappa mér hlýlega á eftir,
vilja fá þennan nýstárlega farfugl til að
setjast að í skáldskapnum.Saman

Kanell og rúsínur
chilepipar og salsa verde
tortilla og quacamole
kjúklingur og tamales
sítróna og corona
salt og tequila
þú og ég.

Jarðarber á gömlu ferðatöskunni
sem ég nota sem borð
og stríð marimbatónlist
úr húsagarðinum
köttur í strigapoka
hundgá
litla systir Angels grætur
þú og ég
fiðlan á stólnum
og ég elska þig
en er dálítið drukkin.Frjáls

Ertu alein hér?
spyr konan mig undrandi
og skenkir meira jólate
ilmandi af kanel og eplum
í marglitar leirkrúsir.

Leyfði pabbi þinn þér að fara?
Máttu bara gera eins og þér sýnist?
Gæti ég kannski gert eins?
Þarf ég ekki að hlýða pabba 
eða manninum mínum?
Get ég hugsanlega líka
 farið?
Gert það sem ég vil?
Verið frjáls?

Svona lá eftir mig slóðin hvert sem ég fór
og yfirleitt buðu karlmennirnir mig ekki velkomna aftur.Í tíbránni

Gamla indíánakonan
stendur við steinvaskinn
frá sólarupprás.
Blaut í fæturna,
þvottalúnar hendur,
gegnum gamalt skinn
rifar í gljáandi augun,
þau skotrast í átt til
bjórflöskunnar á vaskbrúninni.
Sólin strýkur gráar hærurnar.

Hún réttir úr stirðu bakinu – skimar,
óhrein föt í haugum,
fer upp snúinn járnstiga á þakið,
snúrustaurar eins og dauðvona skógur.
Borgin andar þungt í breyskjunni,
dómkirkjuturnar leysast upp í tíbrá
og sólin þurrkar blaut klæðin
sem bærast í golunni.

Nú er hún hætt að koma.
Við höldum að hún sé dáin.
Ung mexíkönsk kona með þreytt augu
er byrjuð að lifa við steinvaskinn okkar.Málarinn

Hann skar sig úr hópnum.
Naífmálari sem sagði fátt,
hafði haldið sýningu í borginni
en ekki haft í fullu tré við hana.

Fylgdi honum af forvitni 
gegnum þéttan skóginn
til að sjá veggmálverkin.
Gerði mér ljóst að við vorum komin
langt út fyrir landakortið
og óvíst um að rata til baka að veginum
þar sem rútan stoppar stundum.

Eftir að allar konur þorpsins
höfðu komið með gjafir
og beðið mig að blessa dætur sínar
með djörfung hinnar frjálsu konu,
gerði ég mér ljóst að ég var tilvonandi
tengdadóttir þorpsins.

Gamla señjora Cruz bauð mér
allar sínar veraldlegu reytur;
stóra plastjesúinn, geitina
og hænurnar, tortillapönnuna og
trékofann með kamrinum
ef ég aðeins vildi heiðra hana
og taka mér unga Cruz fyrir mann.

Mér fannst ég vera plastjesú
þegar ég fór burt til að leita að rútunni.
Salka Valka í Mexíkó

Gamalt sjónvarp í húsagarðinum
við hliðina á gasgeyminum
og steinvaskinum.
Bölva helvískri sápunni
sem vellur endalaust glymjandi
um húsagarðinn með
ærandi klappi og hlátrasköllum.

Svo veiti ég því allt í einu athygli
að Nóbelsskáldið er á skjánum
að tala um Sölku Völku

og held að nú hafi mescalið náð til mín.Brúðkaup

Moldargatan hafði breyst í danshöll.
Langborð með ilmandi mat og drykk,
kertaluktir hvarvetna og litrík klæði.
Hljómsveitin flutti ástarsöngva fyrir hin nýgiftu
og þorpsfólkið dunaði hávært í dansi.

Um stund voru burtu rekin
þyngsli fátæktarinnar
en merkja mátti bældan ofsa
í gleðilátum og skvaldri.
Slagsmál og heitir kossar, allt í senn.
Von og uppgjöf að ganga í eina sæng.

Máninn blessaði brúðhjónin með
mjúkri birtu sinni þessa nótt
og moldin var mjúk og brigðul undir fæti.Leikmunur

Hann var eins og drengur að gera sig gildandi,
einræðisherra fjölskyldunnar; el arquitecto
og var í sambandi við vestrænt fólk, miklu merkilegra.
Hann leið önn fyrir að vera brúnn
afkomandi hvítrar ánauðar.

Fátt hef ég séð stinga eins í stúf
og steypuna og ítalska marmarann
standa hornrétt upp úr rauðu múrsteinsryki auðnar
sem ekkert hafði að geyma nema sögu örbirgðar.
Uppfærður óðalsbóndi bauð við þetta tilefni
upp á grilluð innyfli í tortillu og skærbláan maís.

Tequilað fékk fólkið til að dansa.

Mér var flaggað við þetta hús
eins og væri ég merkisberi Vesturlanda
komin til að heiðra þá sem séð höfðu ljósið
og ég hékk þarna nauðug viljug.Cuba Libre

Kúbanski sjávarlíffræðingurinn sagði mér að
ástandið væri að skána í hans heimahögum
og kannski færi hann til baka að vinna
eftir áratuga útlegð i Mexíkó.

Ég var næstum búin að ákveða að fara til Kúbu
þegar ég sá að hann var í raun og veru
með orm í augnhvítunni
og gat ekki lengur litið hvorki hann
né ferðalagið réttu auga.Elsa

Hún sagði að líf þjóðarinnar væri lengi búið að vera erfitt.
Fólkið, sem elskaði ástina, friðinn og fjölskylduna,
yrði stöðugt fyrir barðinu á gráðugum embættismönnum
sem seldu hæstbjóðanda sál sína og þjóðina með.
Söngvaskáldin næðu vart tóni lengur,
orð á stangli lífshætta,
engum að treysta,
fólk að hverfa.

Við grétum saman því mitt fólk hafði líka lifað
aldalangt harðræði við ysta haf.

Samt alltaf von.

Ekki síst í honum sem bara mátti hvísla nafnið á
og beið færis sunnan landamæra.
En skriðdrekarnir voru mættir þegar hann leiddi bændurna
inn stræti San Christobal með heykvíslar að vopni.

Ég hef ekki heyrt frá Elsu síðan
og var sagt af þarlendum yfirvöldum
að hún hljóti að vera hugarburður.
Enga konu með þessu nafni
sé nokkurs staðar að finna.Vegabréf

Það var sem ég óttaðist,
þeir stöðvuðu mig á landamærunum,
vildu fá að skoða farangurinn.
Klassísk aðferð við að hafa fé af fólki,
endaði stundum illa.
En ég hafði munað eftir að setja
bækur skáldjöfranna

Neruda, Marques og Paz efstar
eins og sigld kona í Kirkjustrætinu ráðlagði.

Var veifað burt með brosi og óskum um að
heilagur Kristófer yrði með mér alla daga.Portales

Strætin iða af lífi
eins og lag eftir Satie.
Heit vetrarsólin dansar í gosbrunnum
og á virðulegum kirkjuþökum.
Gamli fiðlarinn á Portales
spilar fyrir þig og ungu konuna
sem vefur stólsetur úr basti
í skugga hvelfinganna.
Þar hanga líka ungir gítarleikarar
og bíða eftir að verða leigðir
í afmælisveislu eða brúðkaup.
Markaðurinn og lykt af tortillas og maískorni
blandast köllum blöðrusalanna.Coltrane blæs My Favorite Things

Eina tungumálið sem ég skil núna,
eina tungumálið sem segir mér að ég sé
ennþá glöð í hjarta.
Allt annað byggt á misskilningi og fáti.
Sterkt tóbakið gefur mér öryggiskennd.
Alltaf í limbó þessi kona.
Betra að vera kenndur í sól þessara undarlegu daga
– ofurlítið tequila eftir hádegi –
þessara undarlegu daga sem upplýsa mig
um fáfræði mína og ofdirfsku,
hugrekki mitt og visku.
Kemst að því að hér og annars staðar er heimurinn eins,
- eða svipaður.

Syngdu með mér, Coltrane.Alberto Pipino frá Argentínu

Skáldið

veggirnir bækur
kaffi tóbak tequila
brennandi sól og
brennandi myrkur
dagar og nætur lífsins

brosir

orðin
ljóðin
hrjúf og ástríðufull
litir
hringur
orðin
komin langt að

öfgafullur slær hann
höfði í steininn
grætur ljóðin
og stúlkuna frá Uruguay
sem vakti þorstann

hræddur við að slokkna
verða gamall og deyja

skáld í útlegð
komið langt að.Haust í Toluca

Haust í Toluca
þegar andar fara á kreik
og hauskúpur kynna
Hátíð hinna dauðu.

Hinir ríku fátæku
fátæku ríku og ástin.

Sólbakaðar rústir fallinna húsa
jarðskjálftar, þrumur, eldingar,
þunglyndir götusalar
og gólandi hundar.
Þessi veröld skapar tvístraðar sálir
sem sitja við fótskör sköpunarinnar.Hátíð hinna dauðu
el Día de Muertos

Lítið þorp kúrir við kulnað eldfjall,
moldarvegur liggur gegnum þorpið
og upp brekkuna að kirkjugarðinum.
Þar er annríki;
meztísar, kreólar og indíánar
fara í hópum inn um sáluhliðið
með rauðar og hvítar gladíólur í hundraðatali,
löng hvít kerti, haka og skóflur,
vatnsfötur, vínflöskur, tequilakúta og peyotl.
Fullt tunglið og kynleg birta í fjallinu,
heit maísmjólk úr suðupotti mexíkansks örkumlamanns
og enchiladas.

Frá krákustígum tínist hver fjölskylda að sínu leiði;
fólkið dimmleitt og hátíðlegt, hreinsar og mylur moldina,
setur kertin sín þétt kringum leiðið og blómknippi
í vatnsfötur hvora við sinn endann,
breiðir bróderaðan dúk yfir leiðið,
matföng og vín
og kveikir á reykelsi.
Vinir og ættingjar sitja í hring,
eta og drekka,
spjalla um dauðann og lífið
og segja gamansögur af hinum látna.
Einhver orðinn fullur og grætur sárt,
börnin hlaupa um með hundunum
uppfull af kynlegri stemningunni,
barnungar sífra í fangi mæðra sinna
sem sitja við bálandi hrískesti og syngja lágt.

Í kirkjugarðinum tindrar hvikult ljóshaf,
þungur ilmur gladíólanna blandast reykhulu
frá snarkandi viðarköstum og reykelsiskerjum,
vondu tóbaki og ósandi kertum.
Skvaldrið frá fólksmergðinni einhvern veginn kyrrlátt,
söngvarnir tregablandnir.
Börnin og hundarnir hljóðna þegar líður á nóttina,
skuggar ponsjóanna flökta á sverum trjástofnum
og einhver býður upp á tequilakrús,
fagnar því að vera þrátt fyrir allt hluti af þessari
kúguðu en þó óbuguðu þjóð
sem gleymir ekki sínum dauðu.Símaklefi úr öðrum tíma

Stend við hávaðasama umferðaræð
á miðbaug og reyni að hringja heim.
Inni í máðum plastkubbi er ekkert heilt
nema símtólið sem þó hefur séð betri daga
beggja vegna rennur fólk og hávaði viðstöðulaust
eins og stórfljót, við að drekkja mér
ég vön öllu plássinu og athygli og kyrrð
í mínu rúmgóða og loftháa heimalandi þar sem
hver og einn hefur minnst fjórðung ferkílómetra
en hér er hvert líf fárra fiska virði
finn að ég er við að hverfa í flauminn og týnast
einmitt ástæðan til að hringja heim
að heyra kunnuglega rödd úr íslenskri víðáttu
tengja mig aftur inn í tilfinningu um að eiga
tryggan reit í þessum alheimi

alveg er sama hversu oft ég slæ inn númerið
heima hjá foreldrum mínum í Reykjavík
í símaboxum borga hér á miðjörð,
alltaf svarar surgandi sveitasímaröddin „Jörfi!“
segist með þjósti heita Ingibjörg og þekkist mig ekki
þó nú hafi ég hringt alloft.

 

Nærst á andstæðum

Kaktus er heimspekilegur matur.
Mannhæðarhár getur hann hæglega meitt þig
með löngum oddhvössum nálum sínum
en brodddreginn er hann mildur á bragðið
og lífgefandi.


Guadalahara

Gömul kona með blátt ullarsjal um höfuðið situr á stól í dyragættinni og horfir á nútímann streyma eftir götunni. Kvik en döpur augun og klæklóttar hendur segja frá einmanaleika. En hún getur ekki farið, því húsið sem hún hefur búið í alla ævi er ekki til á pappírum og því ekki hennar löglega eign. Og hún sem faldi sig undir fjalagólfinu í þessu húsi ásamt 40 öðrum ættingjum og vinum í uppreisninni 1910! Á ekki neitt og getur ekkert gefið.
Handan þessa stóra herbergis gömlu konunnar eru ótal minningar mannsins við hlið mér.
Þegar hann var lítill drengur iðaði bakgarðurinn af lífi. Þarna var eldhúsið, kolaeldavélin, mortélið til að steyta í kryddin, kvartélið til að mæla kornið þegar búið var að skilja hismið frá kjarnanum. Og þarna gamli bekkurinn sem langamma hans sat á og útbjó tortillas fyrir fjölskylduna. Nú er þetta eldhús myrkt, fullt af kóngulóarvefjum og ryki áranna eins og öll hin herbergin sem snúa inn að garðinum. Þrungin rykugum minningum. Gömul húsgögn, gamall saggi, viðurinn í hurðunum sem eru undarlega fjólubláar ormétinn og múrsteinarnir slitnir af veðrinu. Og gamla konan ein í fremstu stofunni sem snýr að götunni.
Myrkrið geymir máríumyndir og gömul dagatöl ofan á slitnum dragkistum úr rósaviði – lokuðum með fornfálegum klinkum úr smíðajárni. Og hún á ekki húsið sitt, getur ekki flutt úr því og getur ekki arfleitt son sinn að því.
Horfir á manninn við hlið mér, biðjandi augun leitandi ásjár sonarsonar og hann lofar að gera sitt besta, en veit að síðustu 10 árin hefur hvorki gengið né rekið að útvega löglega pappíra um eignarréttinn.
Þegar hún kveður okkur segist hún bráðlega muni deyja og fjalagólfið gamla marrar lokakveðju undir fótum okkar þegar við göngum út í rigninguna.Vor fjarri mínu landi

Gapi eins og fiskur á þurru landi af heimþrá.
Ofskynjanir daglegt brauð og mér finnst ég vera að kafna.
Slær fyrir vitin lykt af blautum mosa, móa,
heyri lækjarsitrur og vorfugla,
þyt hnúkaþeys og bresti hranna.
Sál mín er aðframkomin af litafæð miðjarðar
og þráir af ofsa hinar skarpleitu norðurslóðir.Draumur um fjórar gyðjur

Síminn hringir. Ég svara og í símanum er ungur maður sem ég þekki ekki. ,,Þú verður að koma á torgið. Núna.“ Hann virðist taugaóstyrkur, hræddur og leggur strax á eftir að hafa flutt mér þessi skilaboð.
Ég lít á vinkonu mína, sem er hjá mér í kaffi og segi henni að ég verði víst að fara, án þess að ég viti hvers vegna, en ég er nógu forvitin til að kanna málið. Hún ákveður að koma með og við tökum bílinn minn og ökum af stað.

Torgið hefur breyst. Þar sem ég staðnæmist á því miðju, sé ég hvíta, háa veggi, sem virðast vera gluggalausar bakhliðar húsa. Veggirnir mynda óslitinn hring að torginu. Hvað varð um götuna sem ég kom eftir? Það er ekkert á þessu stóra torgi, aðeins sólbakaður leirinn, máður af fótsporum. Yfir hvelfist ljósblár himinn og birtan er undarlega sterk.

Með ærandi hávaða, sem skellur af offorsi á hvíta veggina, kemur gamall herjeppi æðandi inn á torgið. Ungur maður er aftan við stýrið, hann baðar út handleggjunum og hrópar eitthvað í angist. Mér sýnist hann vera grátandi. Herjeppinn fer stjórnlaust á einn af hvítu veggjunum. Sprungur myndast í vegginn, þær skríða um hann eins og köngurlóarvefur. Allt dettur í dúnalogn.
Ég gæti að manninum en hann er dáinn. Þögnin er óskapleg. En þegar ég fer að jafna mig heyri ég ofurlítið, mjúkt hljóð. Það kemur frá jeppanum. Ég opna hann að aftan og sé furðulega sjón. Hundruð sexhyrndra kristalla hafa verið hengdir í þræði sem mynda vírnet í þakinu og þar sem þeir stjúkast mjúklega hver við annan myndast ólýsanlega fagur tónakliður. Ég strýk fingrunum laust yfir kristallana, hugfangin af fegurð þeirra. Finn fyrir undarlegri orku, sem leiðir frá steinunum yfir í líkama minn.

Ég heyri rödd. Held að það sé vinkona mín, en hún er þá horfin. Röddin, hún kemur út veggnum – í veggnum koma fram útlínur konu og líka á næsta vegg – og þeim næsta ...
Í fjórum veggjum eru fjórar konur, útlínur þeirra óljósar og hvikular. Þær kalla til mín að koma og ég færi mig nær. Fegurð þeirra er mikil og klæði þeirra síður haddurinn og gagnsætt lín. Þær segja mér nöfn sín og af þeim veit ég að þær munu gyðjur vera.
Gyðjur þessar ráða fyrir örlögum mínum og biðja mig að hlíta þeim skilyrðislaust. Tvisvar enn muni þær birtast mér, en það verði seinna á ævinni. Við svo búið hverfa þær í veggina.

Jeppinn er horfinn, en eftir er gríðarstórt gat á veggnum. Ég gægist út um það og sé langa, hvíta sandströnd og marblátt hafið, svo langt sem augað eygir. Ég fer í gegn og geng á ströndinni, niður undir sjávarmál.
Hafið opnast fyrir fótum mér og myndar göng, þurr og slétt, eftir sjávarbotninum. Ég geng niður á við og horfi á hljóðlaust, litríkt og iðandi lífið í sjónum, líkt og í gegnum glerveggi á hvora hönd. Og allt í einu heyri ég þungan nið radda, lít um öxl og sé að á eftir mér í göngunum koma þúsundir manna, karlmenn, konur og börn, íklædd hvítum klæðum og öll bera þau einhvers konar verkfæri.

Ég bíð enn eftir að gyðjurnar segi mér meira.Heimferð

Tveir lögreglumenn komu aðvífandi strangir á svip
enda stóð þarna ringluð ung kona langt að komin
með farangursvagn sem sást varla í fyrir
samanlímdri ferðatösku og marglitum pinklum
sem allt var að hrynja á gólfið
og háannatími á Kennedy.
Svo sprungu þeir úr hlátri og hjálpuðu til,
fannst þessi norðurslóðastúlka í blómakjól
með útkrassað vegabréf
heldur fyndin og sjálfsagt meinlaus.

Heimflugið var langt og klinkið hafði klárast í New York,
bara léttvínið ókeypis um borð
og ég þurfti að fá lánað fyrir Keflavíkurrútunni.
Ekki víst að sagan gengi svona í nútímanum.

TunAstralTolucaMex1994

 

 

Ljóðalestur og sjónvarpsþáttargerð 1994 í tengslum við
30 ára afmæli mexíkóska skáldafélagsins TunAstral, sem
enn starfar.

 

vivamexico